Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Skorarviti
Skorarviti er vestan undir Stálfjalli, norðan við Breiðafjörð. Hann var byggður árið 1953 en kveikt var á vitanum í fyrsta sinn árið 1954. Vitinn var lýstur með gasljósatæki þar til hann var rafvæddur með sólarorku árið 1990. Vitinn er 8,8 m hár. Hönnuður er Axel Sveinsson verkfræðingur.  Á framhlið vitans er að finna minningarskjöld um Eggert Ólafsson varalögmann, náttúrufræðing og skáld og konu hans, Ingibjörgu Guðmundsdóttur, sem 30.maí 1768 ýttu úr Skor út á Breiðafjörð í feigðarför sína. 
Svalvogar
Svalvogavegur er 49 kílómetra langur vegkafli sem liggur á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Leiðin er torfær og erfið yfirferðar á köflum. Á stórum kafla þá þarf að fylgja sjávarhæð því þegar fellur að er vegurinn undir sjávarmáli. Svalvogavegur er með fallegustu leiðum á Íslandi til þess að keyra. Það er ekki hægt að keyra veginn nema vera á fjórhjóladrifnum bíl en best er þó að hjóla leiðina á góðu fjallahjóli þar sem vegurinn getur verið grýttur.  Ef lofthræddir einstaklingar eru í bílnum þá er lagt til að keyrt sé út Arnarfjörð frá Hrafnseyri og sá hringur tekinn að Þingeyri. Þá snýr bíllinn alltaf að fjallshlíðinni ef svo óheppilega vill til að þú mætir bíl. Einnig getur verið skemmtilegt að útbúa hring og keyra þá leiðina um Kvennaskarð og keyra framhjá hæsta fjalli Vestfjarða á leiðinni.
Langanesviti í Arnarfirði
Langanesviti í Arnarfirði var byggður 1949.Hönnuður er Axel Sveinsson verkfræðingur. Vitinn er steinsteyptur ílangur ferhyrningur. Hann er 2,5 m breiður, 5 m langur og 4,8 m á hæð.  Gasbúnaður var í vitanum þar til 1993 en þá var hann rafvæddur með sólarorku. 
Grímseyjarviti
Grímseyjarviti var byggður 1949 og var lýstur með gasljósatæki. Árið 1992 var svo rafvæddur með sólarorku. Vitinn er 10,3 m hár. Hönnuður er Einar Stefánsson húsateiknari. 
Straumnesviti
Árið 1919 var reistur á Straumnesi, norðanvert við mynni Aðalvíkur, 20 m hár járngrindarviti en strand Goðafoss undir Grænuhlíð árið 1916 flýtti fyrir því að reistur var viti á Straumnesi. Árið 1930 var járngrindin orðin illa farin og um hana var sett steypa. Árið 1993 var hann rafvæddur með sólarorku og árið 1995 var sett upp sjálfvirk veðurathugunarstöð. Vitinn er 23,3 m hár. Hönnuðir eru Thorvald Krabbe, Sigurður Thoroddsen, Benedikt Jónasson og Axel Sveinsson verkfræðingar. 
Svalvogaviti
Svalvogaviti stendur á Hafnarnesi yst á tanganum á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Hann er byggður árið 1920. Hönnuðir eru Thorvald Krabbe og Guðmundur j. Hlíðdal verkfræðingur. Vitinn er steinsteyptur, ferstrendur 2,7x2,7 m að grunnfleti og 3 m hár.  Vitinn var rafvæddur árið 1960 með straumi frá ljósavél sem var við vitavarðarhúsið í Svalvogum. Árið 1984 var vitinn aftur lýstur með gasi en þann 10.september 1992 var hann loks raflýstur á ný og þá með sólarorku. 
Hólmavíkurviti
Hólmavíkurviti var reistur árið 1914. Fyrsta áratuginn var í vitanum lítill steinolíulampi, útbúinn með hlíf sem snerist fyrir ljósið vegna hitans frá lampanum og blikkaði ljósið og varð auðþekkt frá öðrum ljósum. Árið 1925 var vitinn gasvæddur og rafvæddur árið 1963. Vitinn er 3 m hár. Hönnuiður er S.H. Lundh & Co. í Kristjaníu í Noregi. 
Sléttueyrarviti
Sléttunesviti er á Sléttunesi norðan við mynni Jökulfjarða. Hann er byggður árið 1949 og er 4,85 m hár. Hönnuður er Axel Sveinsson verkfræðingur.  Hann var lýstur upp með gasljósatækjum þar til 1993 en þá var hann rafvæddur með sólarorku. 
Klofningsviti
Klofningsviti er á skerinu Klofningi vestan við Flatey á Breiðafirði. Hann var byggður árið 1926. Hann var lýstur með gasljósatæki þar til hann var rafvæddur með sólarorku árið 1991. Vitinn er 9,3 m hár. Hönnuður er Benedikt Jónasson verkfræðingur. 
Óshólaviti
Vitinn er byggður árið 1937 á Óshólum undir Óshrynu, yst í Óshlíð, innan við Bolungarvík. Hann er 6,4 m hár og steinsteyptur. Hönnuður er Benedikt Jónasson verkfræðingur.  Vitinn var rafvæddur árið 1964 en gas haft til vara til ársins 1995 en þá var gasbúnaður fjarlægður og hans stað settir rafgeymar sem tengdir eru við varaperu. 
Bjargtangaviti
Viti var fyrst byggður á Látrabjargi árið 1913 en árið 1948 var nýr viti byggður. Var í honum gasljósatæki þar til hann var rafvæddur með orku frá ljósavélum. Árið 1985 var veiturafmagn tekið inn en sjálfvirk ljósavél sér fyrir varaorku ef straumrof verður. Sjálfvirk veðurathugunarstöð var tekin í notkun árið 1995. Vitinn er 5,9 m hár. Hönnuðir eru Axel Sveinsson verkfræðingur og Einar Stefánsson húsateiknari.  
Galtarviti
Á Keflavíkurhól á milli Galtar við Súgandafjörð og Skálavíkur var fyrst byggður viti árið 1920. Hann var gerður eftir sömu teikningu og Svalvogaviti.  Árið 1959 var byggður nýr viti því sá gamli þótti of lágur. Hönnuður er Eggert Steinsen verkfræðingur. Vitinn er 10,7 m hár og byggður úr steinsteypu.  Orka til vitalýsingar fékkst frá ljósavélum og frá og með 1960 einnig frá lítilli vatnsaflsstöð. Árið 1994 var vitinn rafvæddur með sólarorku og vindrafstöðvum.  
Æðeyjarviti
Æðeyjarviti í Ísafjarðardjúpi var byggður árið 1944 en ekki tekinn í notkun fyrr en 1949. Hann er steinsteyptur og er 12,8 m hár. Hönnuður er Axel Sveinsson verkfræðingur.  Gömul gasljóstæki voru sett í hann til þess að byrja með en ný tæki voru sett upp árið 1951. Vitinn var rafvæddur árið 1988 og gasljóstæki fjarlægð. 
Fjallaskagaviti
Fjallaskagaviti er við mynni Dýrafjarðar. Hann var byggður árið 1954 og hann er 12,7 m hár. Hönnuður er Axel Sveinsson verkfræðingur. Þrír aðrir vitar á landinu eru gerðir eftir sömu teikningu.   Vitinn var rafvæddur með sólarorku 28.maí 1993. 
Kópanesviti
Kópanesviti er á Kópanesi, yst á skaganum á milli Tálknafjarðar og Arnarfjarðar. Hann var byggður árið 1971 og lýstur með gasljósatæki þar til hann var rafvæddur með sólarorku árið 1993. Vitinn er 6,4 m hár. Hönnuður er Aðalsteinn Júlíusson verkfræðingur. Við vitann stendur skipbrotsmannaskýli. 
Arnarnesviti
Árið 1902 var byggður viti á Arnarnesi austanvert við mynni Skutulsfjarðar við Ísafjarðardjúp. Vitinn var timburhús. Árið 1921 var reistur járngrindarviti sem leysti hinn af af hólmi. Nýji vitinn notaðist við gasljósatæki þar til hann var árið 1995 þegar sett var í hann rafgeymar. Vitinn er 5,4 m hár. Hönnuður er Thorvalde Krabbe verkfræðingur. 
Sauðanesviti við Súgandafjörð
Sauðanesviti er yst á skaganum á milli Önundarvjarðar og Súgandafjarðar. Norskt ljóshús úr trefjaplasti sem sett var upp árið 1964. Hönnuður er DE-NO-FA A/S, Fredrikstad, Noregi.  Vitinn er 4,7 m hár.  Árið 1991var vitinn rafvæddur með einnota rafgeymum en þann 25.júní 1999 var settur upp sólarorkunemi.  
Hornbjargsviti
Hornbjargsviti var byggður árið 1930 í Látravík, austan við Hornbjarg. Vitinn er 10,2 m hár. Hönnuður er Benedikt Jónasson verkfræðingur. Hann var lýstur með gasljósatæki þar til 1960 en þá var hann raflýstur með orku frá lítilli vatnsaflstöð og ljósavélum. Árið 1995 var hann svo rafvæddur með sólar- og vindorku og sett upp sjálfvirk veðurathugunarstöð. 
Malarhornsviti
Framkvæmdir að vita við Malarhorn hófust fyrst árið 1914og lauk verkinu árið 1915. En árið 1948 var byggður nýr viti með gasljósalýsingu. Vitinn var rafvæddur árið 1963 en gas haft til vara til ársins 1996. Þá var hann útbúinn með varaperu sem fær orku frá rafgeymum. Vitinn er 3 m hár. Hönnuður er Axel Sveinsson verkfræðingur og Einar Stefánsson húsateiknari. 
Selskersviti
Selskersviti er á samnefndu skeri út af Ófeigsfirði. Hann var byggður 1943 úr steinsteypu. Vitinn var ekki tekinn í notkun fyrr en 1947. Hann er 18,4 m hár. Hönnuður er Axel Sveinsson verkfræðingur. Vitinn var lýstur með gasljósatæki þar til 1992 þegar hann var rafvæddur með sólarorku.  
Ólafsviti
Ólafsviti í Patreksfirði er viti sem byggður var árið 1943 og tekinn í notkun árið 1947. Vitinn er 14,4 m hár steinsteyptur turn.  Hann er byggður eftir teikningum Axels Sveinssonar verkfræðings. Gasljós var í vitanum til árisns 1978 en þá var hann rafvæddur.