Hólmavík
- Hólmavík
Hólmavík er stærsti þéttbýlisstaðurinn á Ströndum. Þorpið stendur við Steingrímsfjörð og tilheyrir sveitarfélaginu Strandabyggð. Líkt og algengt er með íslensk þorp og bæi tók þéttbýli að myndast þar seint á 19. öld. Á Hólmavík hefur verið stunduð verslun frá árinu 1895 en elsta byggingin sem þar stendur er verslunarhús sem kaupmaðurinn Richard Peter Riis reisti árið 1897. Þar er nú rekið hið rómaða veitingahús Café Riis.
Aðal atvinnuvegur Hólmvíkinga hefur í gegnum tíðina verið sjávarútvegur en landbúnaður hefur einnig verið blómlegur allt í kringum byggðarlagið og á undanförnum árum hefur ferðaþjónusta farið vaxandi.
Gestir á Hólmavík ættu ekki að láta hjá líða að skoða Galdrasafnið. Strandir eru órjúfanlega tengdar galdrafári 17. aldar og eru þeirri sögu gerð frábær skil á Galdrasafninu sem og í Kotbýli kuklarans á Klúku í Bjarnarfirði í um 20 mínútna akstursfæri frá Hólmavík. Þar er einnig að finna 25 m útisundlaug, Gvendarlaug hins góða, ásamt náttúrulegum heitum potti.
Annað safn, rétt við bæjardyr Hólmvíkinga, er til húsa í gamla félagsheimilinu Sævangi og ber hið virðulega nafn Sauðfjársetur á Ströndum. Þar er að finna margháttaðan fróðleik um sauðkindina og sauðfjárbúskap fyrr og nú. Safnið stendur einnig fyrir ýmis konar viðburðum og uppákomum hvert sumar en þar er sennilega Íslandsmeistaramótið í hrútaþukli þekktast. Á Orrustutanga, rétt við safnið, er æðarvarp sem gaman er að skoða.
Fyrir þá sem eru með mótorhjólið í skottinu þá er mótorcross braut rétt utan við Hólmavík og í Skeljavík er golfvöllur. Handan fjarðarins, á Selströnd, er gaman að skoða fuglalífið sem er afar fjölbreytt.
Mjög skemmtileg gönguleið er í Kálfanesborgum rétt ofan við byggðina og raunar má finna urmul góðra gönguleiða allt í kringum Hólmavík. Svæðið er líka ríkt af allskyns þjóðsögum og sögnum og óneitanlega öðlast bæði gönguferðirnar og bíltúrarnir meira gildi ef fólk hefur tök á að kynna sér einhverjar þessara sagna áður en lagt er í hann. Þegar klettadrangar breytast í tröllskessur, stórgrýti verður að álfaborgum og þúfnabörð verða að álagablettum er hvunndagslegur göngutúr fljótur að breytast í sannkallaða ævintýraför.
Á Hólmavík er virkilega góð útisundlaug með heitum pottum þar sem gott er að skola af sér ferðarykið og láta harðsperrurnar líða úr gönguþreyttum vöðvum.
Frétta- og upplýsingavefurinn strandir.is sér um upplýsingamiðlun fyrir svæðið í samstarfi við sveitarfélagið Strandabyggð.