Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Látrabjarg er fuglabjarg á sunnanverðum Vestfjörðum. Það er stærsta sjávarbjarg Evrópu, 14 km langt frá nesoddanum Bjargtöngum í vestri að Keflavík í austri og 441 metra hátt við Heiðnukinn. Látrabjargi er í daglegu tali skipt í fjóra hluta, sem heita Látrabjarg, Bæjarbjarg, Breiðavíkurbjarg og Keflavíkurbjarg. Bjargtangar er vestasti tangi Íslands og líka Evrópu, á 24°32´3" vestlægrar lengdar. Vestari hluti Látrabjargs er að verulegu leyti lóðrétt standberg frá bjargbrún til sjávar. Bjargið er þverskurður af lagskiptum hraunlagastafla Vestfjarða, sem hlóðst upp í síendurteknum eldgosum fyrir um 13-16 milljónum ára. Síðan hafa roföflin ein ráðið landmótun. Þetta eru elstu jarðlög Íslands.

Látrabjarg iðar allt af fugli framan af sumri, hver snös og stallur er setinn svo sem raðað er í jötu. Í bjarginu er stærsta álkubyggð í heimi í Stóruurð. Þarna verpa um tíu sjófuglategundir og algengastar eru álka, langvía, stuttnefja, rita, fýll og lundi. Látrabjarg hefur verið nytjað frá landnámstíð.

Látrabjarg
Látrabjarg er stærsta sjávarbjarg Íslands og eitt af stærstu fuglabjörgum í Evrópu. Bjargið er vestasti tangi Íslands og því er yfirleitt skipt upp í fjóra hluta í daglegu tali, Keflavíkurbjarg, Látrabjarg, Bæjarbjarg og Breiðavíkurbjarg. Gríðarlegan fjölda fugla af ýmsum tegundum er að finna í bjarginu, þ.á.m álku, langvíu, stuttnefju, lunda og ritu.  Ógnarbratt, 14 km langt bjargið er margbreytilegt og þar eru grónir grasblettir og einnig snarbrattir klettar. Rétt er að fara mjög gætilega þar sem bjargbrúnin er snarbrött og getur verið viðkvæm. Látrabjarg er einn af vinsælustu ferðamannastöðum Vestfjarða og þangað er hægt að keyra.  
Breiðavík
Breiðavík er staðsett á leiðinni út á Látrabjarg. Keyrt er suðvestur yfir hálsinn frá Örlygshöfn og komið er niður í Breiðavík. Í Breiðavík er kirkjustaður og Hótel er þar starfrækt allt árið. Vegurinn er ekki upp á marga fiska en það er þannig á mögum öðrum stöðum á Vestfjörðum. Við mælum með því að fólk taki sér stopp á leið sinni að eða frá Látrabjargi og gangi niður á sandinn í Breiðavík. Skemmtilegt er einnig að sjá hvernig sandurinn hefur fokið upp í fjallshlíðarnar sitthvoru megin og myndar því einskonar strönd upp á fjallstoppana