Látrabjarg er fuglabjarg á sunnanverðum Vestfjörðum. Það er stærsta sjávarbjarg Evrópu, 14 km langt frá nesoddanum Bjargtöngum í vestri að Keflavík í austri og 441 metra hátt við Heiðnukinn. Látrabjargi er í daglegu tali skipt í fjóra hluta, sem heita Látrabjarg, Bæjarbjarg, Breiðavíkurbjarg og Keflavíkurbjarg. Bjargtangar er vestasti tangi Íslands og líka Evrópu, á 24°32´3" vestlægrar lengdar. Vestari hluti Látrabjargs er að verulegu leyti lóðrétt standberg frá bjargbrún til sjávar. Bjargið er þverskurður af lagskiptum hraunlagastafla Vestfjarða, sem hlóðst upp í síendurteknum eldgosum fyrir um 13-16 milljónum ára. Síðan hafa roföflin ein ráðið landmótun. Þetta eru elstu jarðlög Íslands.
Látrabjarg iðar allt af fugli framan af sumri, hver snös og stallur er setinn svo sem raðað er í jötu. Í bjarginu er stærsta álkubyggð í heimi í Stóruurð. Þarna verpa um tíu sjófuglategundir og algengastar eru álka, langvía, stuttnefja, rita, fýll og lundi. Látrabjarg hefur verið nytjað frá landnámstíð.