Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Það er fátt betra en að ferðast milli sundlauga og náttúrulauga og njóta þess að horfa á umhverfið meðan heitt vatnið leikur við mann. 

Sundlaugar
Sundlaugar er víða að finna á Vestfjörðum, í byggð, við gamla héraðsskóla eða yfirgefnar einar úti í náttúrunni. Þær eru eins mismunandi og þær eru margar, það er því um að gera að heimsækja sem flestar á ferð sinni um Vestfirði. 
Pottarnir á Drangsnesi
Ófáir Strandamenn hafa dregið sig saman í pottunum á Drangsnesi, enda hefur þar löngum verið samkomustaður ungs fólks á öllum aldri. Pottarnir þrír eru fyrir neðan veg nálægt sjónum og eru þeir mjög vel sýnilegir frá þorpinu og veginum. Vinsældir pottanna virðast síst hafa minnkað síðustu misseri þó fyrirtaks sundlaug hafi verið reist í plássinu ekki fyrir svo löngu síðan.Aðgangseyrir: frjáls framlög.
Hellulaug
Hellulaug er náttúrulaug rétt svo spölkorn frá þjóðveginum í Vatnsfirði rétt áður en komið er að Flókalundi. Hitastigð í Helluaug er 38° og hún um 60cm djúp með frábæru útsýni yfir fjörðinn. Laugin sést ekki frá veginum, en það er bílastæði til staðar ásamt stíg sem liggur niður að lauginni.
Heydalur
Heiti potturinn í Heydal er náttúrulaug í stuttu göngufæri frá Sveitahótelinu í Heydal. Gott er að enda ánæjulegan dag með því að finna þreytuna líða úr sér í þessum náttúrupotti sem sumir segja færi gestum kraft. Hér á eftir er úrdráttur úr viðtali við Stellu Guðmundsdóttir gestgjafa í Heydal sem birtist í ferðablaði Markaðsstofu Vestfjarða vorið 2008.Gestum finnst forvitnilegt að gista í fjósi og borða í gamalli hlöðu, segir Stella Guðmundsdóttir, gestgjafi í Heydal. Hún rekur þar ásamt fjölskyldu sinni fjölþætta ferðaþjónustu. Sumarið leggst afar vel í okkur. Pantanir lofa góðu og það verður nóg um að vera í allt sumar, Í Heydal er meðal annars boðið upp á gistingu, tjaldsvæði, veitingar, kajakróður og hestaferðir. Dalurinn er algjör perla. Ef gengið Er meðfram ánni inn dalinn sem er kjarri vaxinn má sjá nokkur gil og í innsta gilinu eru margir litlir fossar. Einnig er gaman að ganga upp á fjöllin og yfir í næstu firði. Góð aukning var á tjaldsvæðinu á síðasta sumri. Við höfum gert mikið fyrir svæðið, gróðursett tré, komið fyrir leiktækjum og sett upp salerni og heitar sturtur. Svo er það að sjálfsögðu heita náttúrulaugin sem er alltaf vinsæl enda talið að Guðmundur góði hafi vígt hana og á hún að vera hin mesta heilsulind. Fuglaskoðun og gæðamálVið höfum alla tíð lagt áherslu á vöruþróun og gæðamál. Í ár verða nokkur skref stigin í þá veru. 2007 fengum við styrk frá Ferðamálaráði til að gera upplýsingaspjöld um þá fugla sem sjá má í Heydal og nágrenni. Í tengslum við það höfum við keypt sjónauka og unnið þannig að því að fjölga ferðamönnum sem koma til okkar gagngert til að skoða fugla, sem og að benda almennum ferðamönnum á þann fjársjóð sem í fuglunum felst. Spjöldin voru vígð í Júní sl. sumar og af því tilefni var ýmislegt við að vera, svo sem samkeppni um bestu fuglavísuna, skemmtilegustu fuglamyndina og fleira, segir Stella. Gæðamálin skipa ekki síðri sess. Við erum í verkefni Félags ferðaþjónustubænda og Ferðaþjónustu bænda sem heitir Gerum góða gistingu betri. Þá verðum við líklega fyrst vestfirskra ferðaþjónustufyrirtækja til að fá Green Globe vottun sem vistvæn ferðaþjónusta, en það ferli er nú á lokastigi, segir Stella að lokum.
Reykjarfjörður í Arnarfirði
Rétt við þjóðvegin í Reykjafirði er útisundlaug sem í rennur allt árið í kring. Aðstaða er til fataskipta, en rétt fyrir ofan laugina sjálfa, er líti hlaðin setlaug af náttúrunnar hendi. Þar er yndislegt að slaka á og horfa yfir Arnarfjörðinn, en best er að láta vita að laugin getur orðið dálítið heit. Aðgangur er ókeypis. 
Laugarneslaug á Barðaströnd
Sundlaugin í Laugarnesi við Birkimel á Barðaströnd er fallega staðsett lítil sundlaug með glæsilegu útsýni yfir Breiðafjörð. Bæði er hægt að svamla um í steyptri sundlaug sem og að liggja út af í minni náttúrulaug neðand við þá stóru. Það er Ungmennafélag Barðastrandar sem á og rekur laugina.