Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Hornstrandir Friðlýst svæði

Á Hornströndum er stórbrotin og einstök náttúrufegurð. Meðfram ströndinni eru snarbrött fjöll og inn í þau ganga firðir, víkur og dalir. Land er mótað af ágangi sjávar og jöklum ísaldar sem hafa skilið eftir ófáar hvilftir og skörð. 

Hornbjarg og Hælavíkurbjarg
Hornbjarg er þverhnípt bjarg í friðlandinu á Hornströndum. Nyrsti oddi Hornbjargs heitir Horn og er nyrsti tangi Vestfjarða og þaðan fá Hornstrandir nafn sitt. Bjargið er snarbratt og hæsti tindur þess, Kálfatindur er í 534 metra hæð, tindurinn Jörundur er þar næstur í 429 metra hæð. Bjargið er einstök sjón og engu öðru líkt, einstaklega grænar og grasgrónar hlíðar sem skyndilega verða að snarbröttum klettaveggjum sem hrapa í sjóinn.  Hornbjarg er eitt af mestu fuglabjörgum landsins og þar verpa fjölmargar tegundir bjarg og sjófugla.  Til að komast að Hornbjargi þar að fara með bát frá Ísafirði.  Hælavíkurbjarg er staðsett á milli Hælavíkur og Hornvíkur á Hornströndum. Bjargið er beint í sjó fram og afskaplega skemmtilegar bergmyndarnir má sjá í bjarginu. Bjargið er 521 metra hátt þar sem það er hæst og margir sjófuglar sem byggja það. Súlnastapi stendur fyrir utan bjargið en þar er mikil súlubyggð. 
Hesteyri
Hesteyri er eyðiþorp við Hesteyrarfjörð í Jökulfjörðum á norðanverðum Vestfjörðum. Þorpið lagðist í eyði um miðja 20.öld en þar eru nú um 9 hús sem notuð eru sem sumarhús. Þegar mest lét bjuggu um 80 manns á eyrinni. Sögusvið íslensku kvikmyndarinnar Ég man þig eftir sögu Yrsu Sigurðardóttur er á eyrinni.
Refir
Heimskautarefurinn er eina spendýrið á Íslandi sem hefur komið hingað til lands án hjálpar mannsins. Stór hluti íslenska tófustofnsins er á Vestfjörðum og halda dýrin mikið til í kringum stór fuglabjörg og strendur. Að vetrinum til er refurinn hvítur en verður brúnn á sumrin. Refurinn var friðaður á Hornströndum árið 1995 og er orðinn ansi gæfur á svæðinu. Melrakkasetrið í Súðavík er helgað refnum og má þar sjá yrðlinga í girðingu að sumri til. 
Aðalvík
Aðalvík á Hornströndum er um 7 km breið vík sem skiptist niður í þrennt, hina gömlu sjávarstaði Látra og Sæból og á milli þeirra má finna Miðvík. Gönguleiðir yfir á Hesteyri má finna upp frá öllum þremur stöðum, gengið er á Straumnesfjall upp frá Látrum en þar má finna leifar af gamalli herstöð Bandaríkjamanna. Eins er hægt að ganga yfir í Rekavík bak Látra og þaðan áfram yfir í fleiri víkur Hornstranda. Sæbólsmegin stendur kirkjan að Stað við Staðarvatn og þar má einnig ganga upp á Darra og finna rústir frá Bretum sem þar sátu í seinni heimstyrjöldinni. 
Fljótavík
Fljótavík er vík á ströndum sem staðsett er á milli Hælavíkur og Rekavíkur Bak Látur. 
Hornvík
Hornvík er stór vík á Hornströndum og vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Víkin er staðsett á milli tveggja þverhníptra bjarga, Hælavíkurbjargs og Hornbjargs. Björgin eru þekkt fyrir náttúrufegurð, fágætar sjófuglategundir og þann fjölda fugla sem þar býr. Engin búseta er í Hornvík en þar voru áður mörg býli. 
Drangajökull
Drangajökull er eini jökullinn sem eftir er á Vestfjörðum. Jökullinn er sá fimmti stærsti á landinu og sá eini jökla á Íslandi sem ekki nær 1000 metra hæð. Drangajökull fær nafn sitt frá Dröngum er ganga í sjó fram hjá Drangavík. Milli þessara dranga eru hin svokölluðu Drangaskörð og eru mjög tignarleg að sjá. Meðan Hornstrandir voru í byggð lá alfaraleið þangað norður yfir jökulinn og meðal annars þá sóttu bændur við djúp rekaðvið á Horn- og austurstrandir og drógu yfir jökul.