Patreksfjörður
- Ævintýrafjörður
Patreksfjörður stendur við samnefndan fjörð og er stærsti þéttbýlisstaðurinn á sunnanverðum Vestfjörðum. Þorpið teygir sig á milli Vatneyrar og Geirseyrar og gekk áður fyrr jafnan undir Vatneyrar nafninu. Patreksfjörður er nú hluti af hinu sameinaða sveitarfélagi Vesturbyggð sem teygir sig yfir mestalla Vestur-Barðastrandarsýslu.
Verslun hefur verið stunduð á þessu svæði frá fornu fari og þangað sóttu kaupmenn frá ýmsum löndum. Á einokunartímanum var Vatneyri viðurkenndur verslunarstaður og fiskihöfn. Veturinn 1615 bjuggu baskneskir skipbrotsmenn um sig í verslunarhúsunum, en þeir voru þá á flótta undan Ara sýslumanni í Ögri og flokki hans,) sem eltu uppi og aflífuðu marga skipbrotsmannanna í hinum alræmdu Spánverjavígum.
Þéttbýli tók að myndast á svæðinu á seinni hluta 19. aldar og árið 1900 voru íbúarnir orðnir um 350 talsins. Innan Vatneyrar var gott hafskipalagi og þangað sóttu erlend skip mjög. Heimildir eru um að 100 seglskip hafi verið á legunni í einu og síðar varð Patreksfjörður fjölsótt höfn fyrir erlenda togara sem komu til viðgerða eða til að leita skjóls undan veðrum.
Patreksfirðingar voru miklir frumkvöðlar í útgerð og fiskveiðum. Þeir hófu þilskipaútgerð fyrstir Vestfirðinga og voru jafnframt í forystu þegar útgerð togara hófst.
Enn í dag er sjávarútvegur mikilvægasta atvinnugreinin á Patreksfirði en þar er einnig að finna fjölbreytta þjónustu. Menningin á sér líka djúpar rætur á svæðinu og eru skáldið Jón úr Vör og listmálarinn Kristján Davíðsson líklega kunnustu listamenn Patreksfjarðar. Þá hefur heimildamyndahátíðin Skjaldborg fest sig í sessi á undanförnum árum sem ein eftirtektarverðasta kvikmyndahátíð landsins.
Ferðafólk getur slakað á í nýrri og stórglæsilegri sundlaug Patreksfirðinga eða tekið hring á golfvellinum. Margir af fegurstu og vinsælustu áningarstöðum ferðamanna á Vestfjörðum eru í þægilegu ökufæri frá Patreksfirði svo sem Vatnsfjörður, Rauðasandur og Látrabjarg. Þess má geta að National Geograpic valdi nýlega Látrabjarg í hóp þeirra 10 staða sem bjóða upp á fegurstu sjávarsýn (e. ocean view) í heiminum.