Bíldudalur
- Arnarfjörður
Bíldudalur stendur við hinn ægifagra Arnarfjörð og tilheyrir sveitarfélaginu Vesturbyggð. Fiskveiðar- og vinnsla hafa verið stór þáttur í atvinnulífi Bíldælinga í gegnum tíðina en þeir voru einnig í forystu í verslunarmálum Íslendinga á sínum tíma. Eftir að einokuninni var aflétt stofnaði Ólafur Thorlacius verslun og varð umsvifamesti kaupmaður landsins. Hann gerði út þilskip, átti flutningaskip og varð fyrstur Íslendinga til að sigla með saltfisk beint á markað á Spáni. Seint á 19. öld hóf Pétur J. Thorsteinsson útgerð og verslun á Bíldudal og fór þá í hönd mesti uppgangstími í sögu bæjarins, enda hefur Pétur oft verið kallaður faðir Bíldudals. Hinn kunni listmálari Muggur var sonur Péturs.
Bíldudalur hefur uppá ótal margt að bjóða fyrir þá sem þangað leggja leið sína. Fyrst má nefna safn Jóns Kr. Ólafssonar söngvara sem helgað er sögu Íslenskrar dægurtónlistar. Þá er í bænum nýlegt Skrímslasetur sem helgað er sjóskrímslum við strendur Íslands en Arnarfjörður er einmitt þekktur fyrir mörg kyngimögnuð sjóskrímsli. Frá Bíldudal er líka hægt að komast í sjóstangveiði eða í ferð á slóðir Gísla Súrssonar í Geirþjófsfirði. Þá er vinsælt að aka út með firðinum allt vestur í Selárdal að skoða höggmyndir Samúels Jónssonar en á þeirri leið eru líka fallegar fjörur og ægifagrir dalir þar sem gott er að ganga í blíðunni. Á Bíldudal er níu holu golfvöllur og ekki má gleyma lauginni í Reykjafirði, steinsnar frá þorpinu, þar sem hægt er að láta fara vel um sig á hvaða tíma sólarhringsins sem er.