Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Hótel Laugarhóll

- Sýningar

AÐSTAÐA

Hótel Laugarhóll er heimilislegt, sveitahótel í gróðursælum dal á Ströndum, miðja vegu milli Ísafjarðar og Reykjavíkur. Boðið er upp á gistingu í eins, tveggja og þriggja manna herbergjum, með eða án sér baðs. Einnig er tekið er á móti hópum, allt að 40 manns í uppbúin rúm. Á Laugarhóli er að finna notalega setustofu með nettengingu, veitingastað, íþróttasal og gallerí, sundlaug og heitan pott. Skammt frá hótelinu er tjaldsvæði með rennandi vatni og salernum.  Tjaldsvæðið er opið frá 1. júní til 1. september.

 

Utan háannatíma hentar staðurinn einstaklega vel til funda-, námskeiða- og ráðstefnuhalds og ekki síður sem æfingabúðir fyrir kóra, leik- og íþróttahópa, björgunarsveitir eða gönguskíðagarpa,  

 

AFÞREYING

Við hótelið stendur Gvendarlaug hins góða, ylvolg sundlaug, með náttúrulegu heitu vatni (32°C) og náttúruleg heit uppspretta (42°C), vinsæll viðkomustaður hjá lúnum ferðalöngum. Í næsta nágrenni eru fjölbreyttar og fallegar gönguleiðir, silungsveiði, hestaleiga, sjóstangveiði og lundaskoðun, ósnert og víða stórbrotin náttúra og ævintýralegar rekafjörur sem eru eitt helsta tákn Strandasýslu.

 

VEITINGASTAÐUR

Boðið er uppá veitingar í björtum og notalegum borðsal með útsýni yfir sveitina. Þar má gæða sér á bragðgóðum, heimilislegum mat úr héraði í bland við framandi rétti. Á boðstólum er að jafnaði ferskt sjávarfang, heimalagaðar súpur og nýbakað brauð, ásamt grænu salati og kryddjurtum úr garðinum, að ógleymdum girnilegum eftirréttum.

 

KOTBÝLI KUKLARANS

Strandir hafa löngum verið kenndar við galdra og í Bjarnarfirði bjó Svanur galdramaður á Svanshóli sem getið er í upphafskafla Njálu. Kotbýli kuklarans er annar áfangi Galdrasafnsins á Hólmavík og stendur við hlið Gvendarlaugar. Það sýnir vel þær aðstæður sem almúgafólk á Ströndum bjó við á tímum galdrafársins og fátæklegur aðbúnaðurinn útskýrir ef til vill þörf þess til að sækja sér styrk í kukl.

 

GVENDARLAUG HINS GÓÐA

Sundlaugin á sér merka sögu en hún var byggð á fimmta áratug síðustu aldar með sameiginlegu átaki bænda úr hreppnum. Nýleg sundskýli eru við laugina og í anddyri þeirra er sýning sem greinir í máli og myndum frá byggingu laugarinnar.

 

GVENDARLAUG HIN FORNA

Skammt ofan við sundskýlin er Gvendarlaug hin forna, náttúruleg heit uppspretta, blessuð í byrjun 13. aldar af Guðmundi góða fyrrum Hólabiskupi. Hún er talin búa yfir lækningamætti og er nú friðuð og í umsjá Þjóðminjasafns Íslands.

 

STAÐSETNING

Frá Reykjavík er rúmur þriggja stunda akstur (258 km) að Laugarhóli, gegnum Borgarnes og Búðardal til Hólmavíkur. Þaðan liggur leiðin fyrir botn Steingrímsfjarðar og yfir Bjarnarfjarðarhálsinn. Hótel Laugarhóll er við veg nr. 643.

Hótel Laugarhóll

Hótel Laugarhóll

AÐSTAÐA Hótel Laugarhóll er heimilislegt, sveitahótel í gróðursælum dal á Ströndum, miðja vegu milli Ísafjarðar og Reykjavíkur. Boðið er upp á gisting
Sundlaugin Laugarhóli: „Gvendarlaug hins góða“

Sundlaugin Laugarhóli: „Gvendarlaug hins góða“

Gvendarlaug hins góða er ylvolg 25m almenningssundlaug við Hótel Laugarhól í Bjarnarfirði á Ströndum. Til hliðar við sundlaugina er vinsæl náttúrulau
Bjarnarfjörður

Bjarnarfjörður

Á milli Steingrímsfjarðar og Veiðileysufjarðar liggur Bjarnarfjörður. Bæði er hægt að keyra norður yfir Bassastaðaháls frá Steingrímsfirði og einnig a

Aðrir (1)

Þemaferðir ehf. Bakki, Bjarnarfirði 510 Hólmavík 451-3384