Sæskrímslin - Nýtt íslensk götuleikhús af stærri gerðinni
Sýningin verður á Byggðasafni Vestfjarða, Ísafirði 8 . júní kl. 15:00
Aðgangur er ókeypis og verkið er að mestu flutt án orða svo það er aðgengilegt fyrir öll, óháð tungumáli.
Sæskrímslin er götuleikhússýning af stærri gerðinni sem frumflutt verður á opnunardegi Listahátíðar í Reykjavík þann 1. júní nk. á Miðbakkanum í Reykjavík. Í framhaldi verður sýningin meðal annars á Ísafirði 8. júní. Sæskrímsli, sprottin úr þjóðsagnaarfi Íslendinga, munu lifna við og birtast áhorfendum á hafnarbakkanum í formi stórra leikgerva sem vakin eru til lífs af íslensku sirkuslistafólki auk hóps ungmenna frá hverjum stað sem sýnt er á. Hafgúa tekur yfir togara, hópur fjörulalla leika lausum hala, skeljaskrímsli gengur um með hringlandi brynju sína og vökult auga hinnar risastóru sæskrímslamóður fylgist vel með.
Listhátíð í Reykjavík pantaði Sæskrímslin sérstaklega sem opnunarverk hátíðarinnar árið 2024. Að verkinu standa sirkuslistahópurinn Hringleikur og leikgervastúdíóið Pilkington Props en verkið er fyrsta götuleikhúsverkið af þessari stærðargráðu sem framleitt er hér á landi. Hringleikur hefur frá stofnun verið brautryðjandi á sviði sirkuslista hér á landi og unnið að fjölbreyttum sýningum, bæði innandyra og utan, í samstarfi við ólíka hópa og stofnanir. Piklington Props er nýtt leikgervastúdíó sem sérhæfir sig í hönnun og útfærslu á ýmis konar leikmunum og búningagerð og hefur unnið að fjölbreyttum og ólíkum verkefnum undanfarin ár. MurMur Productions framleiðir verkið en Listahátíð í Reykjavík er einnig meðframleiðandi verksins.
Verkið er unnið í fjölbreyttu samstarfi við ólíka hópa. Við upphaf verksins var haldin Sæskrímslaráðstefna á Skrímslasetrinu á Bíldudal þar m.a. þjóðfræðingar og sjávarlíffræðingar veltu fyrir sér tilvist sæskrímsla. Börn víða um land voru þátttakendur í listrænni rannsókn og við undirbúning verkefnisins. Skrímslasmiðjur voru haldnar í völdum landshlutum í samstarfi við List fyrir alla þar sem börn, í samstarfi við listafólk og þjóðfræðinga, útfærðu hugmyndir um eiginleika og útlit skrímslanna. Hugmyndir barnanna voru svo nýttar beint inn í listræna úrvinnslu verksins. Á hverjum stað taka ungmenni þátt í flutningi verksins þar sem þeim gefst færi á að kynnast möguleikum sirkuslista með sérstökum vinnusmiðjum fyrir sýninguna sjálfa.
Aðstandendur
Listrænir stjórnendur: Eyrún Ævarsdóttir og Jóakim Meyvant Kvaran
Framleiðandi: Ragnheiður Maísól Sturludóttir, MurMur Productions
Hönnun og smíði Sæskrímsla: Daníel Adam Pilkington og Thomas Burke, Pilkington Props
Útlitshönnun: Brian Pilkington
Leikgerð: Hildur Knútsdóttir
Tónskáld: Friðrik Margrétar- Guðmundsson
Öryggismál og rigger: Thomas Burke
Búningar og leikmunir Sæskrímslastofu Ríkisins: Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir
Aðstoð við gervasmíði: Björg Einarsdóttir, Sara Magnús, Kate Harrison
Þjóðfræðingur: Dagrún Ósk Jónsdóttir
Meðframleiðandi: Listahátíð í Reykjavík
Flytjendur: Alejandro Bencomo, Bjarni Árnason, Bryndís Torfadóttir, Daniel Adam Pilkingin, Harpa Lind Ingadóttir, Jóakim Meyvant Kvaran, Lauren Charnow, Nick Candy and Thomas Burke