Hnífsdalur
- Hnifsdalur
Hnífsdalur er þorp við utanverðan Skutulsfjörð og tilheyrði áður Eyrarhreppi. Hann sameinaðist Ísafjarðarkaupstað árið 1971 og er nú hluti af sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ. Árið 1870 var búið á fimm lögbýlum í dalnum en fljótlega upp úr því hófst þorpsmyndun þegar fátækir tómthúsmenn tóku að setjast þar að. Skólahús var reist árið 1882 en árið 1920 voru íbúarnir orðnir ríflega 450 talsins.
Hnífsdalur, líkt og önnur vestfirsk þorp, byggðist upp í kringum fiskveiðar og vinnslu. Í dag er þar öflugasta útgerðarfyrirtæki Vestfjarða og eitt hið öflugasta á landinu, Hraðfrystihúsið Gunnvör.
Í Hnífsdal er annar munni hinna nýju jarðganga sem komu í stað Óshlíðarvegarins á leiðinni til Bolungarvíkur. Óshlíðin er nú aflögð sem bílvegur en á góðviðrisdögum er afar vinsælt að ganga þar eða hjóla, enda er náttúrufegurðin einstök. Frá Skarfaskeri, skammt frá gangamunnanum, er fallegt útsýni um Djúp, yfir á Snæfjallaströnd og víðar. Þar hefur verið sett upp örnefnamynd fyrir þá sem vilja glöggva sig á staðháttum.
Sjálfur dalurinn er ákaflega fallegur til gönguferða hvort sem fólk vill hafa þær stuttar og þægilegar eða reyna meira á sig og fara hærra upp í fjöllin. Afar vinsælt er að ganga upp úr Hnífsdal og fara um Þjófaskarð yfir í Skutulsfjörð eða um Heiðarskarð til Bolungarvíkur.