Bolungarvík
- Víkin kæra, Víkin mín
Kaupstaðurinn Bolungarvík stendur við samnefnda vík og er nyrsti þéttbýlisstaður á Vestfjörðum. Það var Þuríður sundafyllir sem nam land í víkinni og eignaði sér ekki bara landið heldur einnig miðin þar út af. Miðin voru auðug og marga fýsti í að veiða þar. Það var Þuríður tilbúin til að leyfa en aðeins ef menn borguðu henni kollótta á fyrir. Þess vegna er stundum sagt að hún hafi verið fyrst Íslendinga til að innheimta veiðileyfagjald. Bolungarvík mun vera elsta verstöð landsins og er hennar m.a. getið í Fóstbræðrasögu. Öldum saman var hún líka ein allra stærsta verstöðin.
Föst byggð tók að myndast í Bolungarvík um 1880 og um aldamótin 1900 voru íbúar á svæðinu orðnir yfir 500 talsins. Á fyrstu árum nýrrar aldar átti sér stað mikil uppbygging í þorpinu sem breyttist í gróskumikinn bæ. Þó voru slæmar hafnaraðstæður nokkur þrándur í götu þess að vélbátaútgerð gæti þróast jafn hratt og þá var að gerast víða annars staðar. Árið 1911 var ráðist í hafnarbætur með byggingu brimbrjóts sem á næstu áratugum var lengdur mjög, breikkaður og efldur.
Saga Bolungarvíkur hefur alla tíð verið samofin hafinu, fiskveiðum og vinnslu. Margir landsþekktir afla- og útgerðarmenn hafa sett svip sinn á þá sögu. Þar ber ugglaust hæst Einar Guðfinnsson en fyrirtæki hans EG var um margra áratuga skeið eitt allra öflugasta útgerðarfélag landsins.
Bolungarvík er sannkölluð paradís ferðalangsins. Bærinn státar af frábæru safni, hin endurgerða verbúð Ósvör. Í bænum er líka glænýr grasagarður þar sem hægt er að skoða fjölda vestfirskra jurta.
Á björtum degi jafnast ekkert á við að aka upp á Bolafjall og njóta þar stórkostlegs útsýnis yfir í Jökulfirði og Djúp. Sumir fullyrða raunar að þeir geti séð grilla í Grænland við bestu skilyrði. Vegurinn upp á Bolafjall er alla jafna opinn í júlí og ágúst en stundum lengur ef aðstæður eru góðar. Fari fólk upp á Bolafjall er tilvalið að halda áfram yfir í Skálavík þar sem ríkir einstök kyrrð og náttúrfegurð. Hraustmenni eiga það til að baða sig í sjónum þar í víkinni, en einnig er vinsælt að hoppa í ískaldan hylinn í Langá, steinsnar frá fjörunni. Skálavík er líka tilvalinn staður fyrir lengri og styttri gönguferðir og óvíða er betra að njóta miðnætursólarinnar á sumrin.
Önnur perla við bæjardyr Bolvikinga er Syðridalur. Þar er góður golfvöllur en einnig stöðuvatn og á þar sem hægt er að fá ódýr veiðileyfi. Innar í dalnum eru flottar gönguleiðir m.a. yfir í Hnífsdal og til Ísafjarðar en einnig er gönguleið upp að gamalli surtarbrandsnámu þar sem brúnkol voru unnin á árunum 1917-18.
Gamli Óshlíðarvegurinn, sem um árabil var einn alræmdasti vegur landsins, er nú aflagður sem akvegur eftir að hin nýju göng á milli Bolungarvíkur og Hnífsdals voru opnuð. Á góðviðrisdögum er hlíðin nú afar vinsæl til gönguferða og hjólreiða enda er umhverfið stórbrotið.
Að allri þessari útivist lokinni er svo upplagt að láta líða úr sér í sundlauginni í Bolungarvík. Þetta er hugguleg innilaug en við hana er útisvæði með heitum pottum og vatnsrennibraut.
Sjóstangveiði hefur verið vaxandi liður í þjónustu við ferðafólk í Bolungarvík en einnig er boðið upp á bátaleigu með eða án skipstjóra. Þá er haldið uppi reglulegum siglingum frá Bolungarvík inn í Hornstrandafriðlandið á sumrin.