Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Á Vestfjörðum má finnar margar fallegar náttúruperlur og margar leiðir til að njóta einstakrar náttúru. Gefðu þér tíma til að stoppa og ganga upp að næsta fossi, setjast niður og anda. 

Dynjandi
Dynjandi er mestur fossa á Vestfjörðum. Hann má finna í Dynjandisvogi fyrir botni Arnarfjarðar. Fossinn og umhverfi hans hans var friðlýst sem náttúruvætti árið 1981, enda um einstaka náttúruperlu að ræða.Dynjandi er í ánni Dynjandi sem rennur ofan af Dynjandisheiði. Hún á upptök sín í nokkrum vötnum á heiðinni sem liggur í jaðri hálendissvæðis Glámu. Glámusvæðið einkennist af jökulruðningum og dældum sem smávötn hafa safnast í.Dynjandi fellur niður u.þ.b. 100 metra hátt og bungumyndað berg. Fossastiginn hefur orðið til vegna lagskiptingar bergsins í hraunlög og lausari millilög. Fossberarnir eru hraunlögin en millilögin hefur áin grópað undan þeim. Fossarnir í Dynjanda eru sex. Efst er Fjallfoss, þá Hundafoss, Strokkur, Göngumannafoss, Hrísvaðsfoss og Sjóarfoss.
Flatey á Breiðafirði
Breiðafjörður er annar stærsti flói landsins en mynni hans er 70 km á breidd. Þar sem fjörðurinn er grynnri og mjórri, eru nær óteljandi eyjar, en talið er að þær séu um 2700-2800 og auk þeirra eru fjöldamörg sker og boðar. Ýmsar þessara eyja voru byggðar fyrrum en langflestar þeirra eru nú í eyði. Flatey er eina undantekningin en hún er stærst Breiðafjarðareyja og þar eru 6 manns með skráð lögheimili. Flatey er einnig eina Breiðafjarðareyjan sem er í byggð allt árið. Margar eyjanna voru í byggð fyrir ekki svo löngu síðan líkt og Hvallátur, Svefneyjar og Akureyjar en það er af sem áður var. Eyjarnar eiga það allar sameiginlegt að hafa myndast undan afli skriðjökla á ísaldartímanum. Þær eru flatlendar að mestu og jarðlögin svipuð og á Vestfjörðum. Í mörgum eyjanna er mikil gróska og margar tegundir plantna. Stór hluti af hérlendum stofnum fugla eins og lunda, æðarfugls og teistu er á firðinum. Sagt er að fólk sem bjó við Breiðafjörð og á eyjunum hafi sjaldan eða aldrei liðið matarskort. Eyjarnar iða af fuglalífi og flesta fuglana má nytja. Auk þess var gnægð fisks og sjávarspendýra í flóanum, fjörubeit og fleira. Lífríki eða vistkerfi svæðisins er óvenju fjölþætt og stóð af sér harðæri sem komu verr niður annars staðar og ollu þá jafnvel fólksflutningum til Breiðafjarðarsvæðisins.
Hornstrandir
Hornstrandafriðland nær yfir nyrsta hluta Vestfjarðakjálkans. Auk hinna eiginlegu Hornstranda nær friðlandið yfir Aðalvík og norðurhluta Jökulfjarða.  Á Hornströndum er stórbrotin og einstök náttúrufegurð. Meðfram ströndinni eru snarbrött fjöll og inn í þau ganga firðir, víkur og dalir. Land er mótað af ágangi sjávar og jöklum ísaldar sem hafa skilið eftir ófáar hvilftir og skörð. Jarðsöguna má lesa úr landslagi og eru víða menjar um gróðurfar og veðurfar fyrir milljónum ára. Gróðurfar er einstakt. Gróður hefur aðlagast aðstæðum á svæðinu, stuttum og björtum sumrum og snjóþungum vetrum, og er furðu gróskumikill. Þá hefur landið lengi haft frið fyrir ágangi manna og búfjár. Víða er fallega gróið land í víkum og fjörðum og á síðustu áratugum ber meira á nokkrum tegundum plantna sem áður voru nánast horfnar vegna beitar. Fuglalíf er auðugt á svæðinu enda fæðuskilyrði góð í hafinu og enginn hörgull á hentugum varpstöðvum. Á sumrin er mest um fugla sem halda til á sjó og eingöngu setjast upp til að verpa. Einnig verpir fjöldi fugla, vatna og votlendisfugla af ýmsum tegundum með ströndinni. Meðal fuglabyggða eru tvö af stærstu fuglabjörgum landsins. Í Hælavíkurbjargi er talin vera mest svartfuglabyggð á landinu og hvergi er meira um langvíu en í Hornbjargi. Refir eiga hér griðland. Heimskautarefir lifa allt umhverfis norðurhvel jarðar og eru einstaklega vel aðlagaðir veðráttu og fimbulkulda á norðurslóðum. þeir munu hafa verið einu villtu landspendýrin á Íslandi við landnám og hafa líklega borist til landsins á ísöld þegar jökulhvel ísaldar tengdi saman lönd á norðurhjara. þá má gera ráð fyrir að refir hafi alla tíð síðan borist öðru hverju með hafís til landsins. Á Hornströndum má hvarvetna rekast á refi enda hafa fleir nóg að bíta og brenna. Í friðlandinu virðist þeim ekki standa mikil ógn af mönnum og eru reyndar orðnir talsvert mannvanir sumir hverjir. Áður var hér allnokkur byggð og þeir sem áttu allt sitt undir náttúrunni nýttu hlunnindi sem hún gaf eins og framast var kostur. Byggð lagðist af fyrir u.fl.b. hálfri öld og víða er að finna menjar um horfna búsetu og lífsbaráttu genginna kynslóða. Hvarvetna blasir fortíðin við og gamlar frásagnir koma upp í hugann nánast við fótmál hvert. Hornstrandir eru paradís náttúruunnenda og landið sveipað ævintýraljóma í vitund ferðalanga. Hornstrandafriðland hefur sérstöðu að því leyti að það er ekki í vegasambandi við umheiminn og eingöngu fært þangað sjóleiðina eða á tveimur jafnfljótum. Um svæðið liggur fjöldi gönguleiða við allra hæfi. Reglubundnum ferðum er nú haldið uppi að sumrinu. Á sumrin er einnig rekin gisting og greiðasala á nokkrum stöðum í friðlandinu. Samfara aukinni umferð hafa verið settar reglur um umgengni í Hornstrandafriðlandi sem ferðafólki ber að kynna sér. Hægt er finna þær og fleiri upplýsingar um Hornstrandir á vefnum https://ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/fridlyst-svaedi/vestfirdir/hornstrandir . Svæðið er í Ísafjarðarbæ en í umsjón Umhverfisstofnunar. Gestastofa Hornstrandastofu er staðsett rétt við Silfurtorg í miðbæ Ísafjarðar.
Látrabjarg
Látrabjarg er stærsta sjávarbjarg Íslands og eitt af stærstu fuglabjörgum í Evrópu. Bjargið er vestasti tangi Íslands og því er yfirleitt skipt upp í fjóra hluta í daglegu tali, Keflavíkurbjarg, Látrabjarg, Bæjarbjarg og Breiðavíkurbjarg. Gríðarlegan fjölda fugla af ýmsum tegundum er að finna í bjarginu, þ.á.m álku, langvíu, stuttnefju, lunda og ritu.  Ógnarbratt, 14 km langt bjargið er margbreytilegt og þar eru grónir grasblettir og einnig snarbrattir klettar. Rétt er að fara mjög gætilega þar sem bjargbrúnin er snarbrött og getur verið viðkvæm. Látrabjarg er einn af vinsælustu ferðamannastöðum Vestfjarða og þangað er hægt að keyra.  
Framúrskarandi Bolafjall
Framúrskarandi Bolafjall er frábær útsýnisstaður fyrir ofan Bolungarvík og segja má að útsýnispallurinn sé einn helsti viðkomustaður ferðamanna á norðanverðum Vestfjörðum. Frá fjallinu er stórbrotið útsýni að Hornstrandafriðlandinu, Jökulfjörðum, Ísafjarðardjúpi og sumir segja alla leið til Grænlands. Sólsetrið er einnig sérstaklega fallegt frá Bolafjalli. Vegurinn upp á fjallið er eingöngu opinn yfir sumarmánuðina en hann var byggður fyrir Radarstöðina sem staðsett er á fjallinu. Stöðin var byggð af ameríska hernum á áttunda áratugnum en er núna rekin af íslensku Landhelgisgæslunni. Áður en farið er upp á Bolafjall, eða jafnvel eftir, þá mælum við með því að ferðamenn kíki við í Skálavík Vegurinn upp á fjallið er opnaður þegar aðstæður þykja vera orðnar góðar og lokað þegar snjóa tekur að hausti. Venjulega er vegurinn opinn frá miðjum júní til miðs septembermánaðar. 
Grímsey
Grímsey á Steingrímsfirði er sannkölluð náttúruperla. Einungis 10 mínútna sigling er til Grímseyjar og boðið er upp á áætlunarferðir frá Drangsnesi. Í Grímsey er mikil náttúrufegurð og fjölskrúðugt fuglalíf. Við reiknum með því að það taki um 2 klukkustundir að ganga um eyna. Fleiri upplýsingar er að finna á kaffihúsinu Malarhorni
Valagil
Valagil er staðsett í botni Álftafjarðar. Gilið er mikilfengleg sjón og þar finnast fjölbreytt berglög og stórbrotið landslag. Í botni Álftafjarðar er bílastæði og merkt gönguleið er inn að gilinu. Frá bílastæðinu er 2 km þægileg ganga inn að Valagili. Sumir telja að gilið dragi nafn sitt af fuglinum Fálka sem er stundum kallaður Valur, en þeir verpa gjarnan á svæðinu en aðrir telja að nafnið sé komið frá konu sem hét Vala og týndi lífi í gilinu fyrir hundruðum ára.
Vatnsfjörður
Vatnsfjörður er einn af fjörðunum sem ganga norðan úr Breiðafirði og er hann vestastur þeirra. Fjörðurinn var friðlýstur árið 1975 til að vernda náttúru landsins. Landslag í firðinum er að mestu gróft og stórgrýtt hálendi en láglendi hans er vaxið kjarri að mestu. Þar skapast mikil veðursæld og þaðan er tilvalið að heimsækja marga af helstu ferðamannastöðum sunnanverðra Vestfjarða. Úr Vatnsfirði tekur um eina og hálfa klukkustund að aka að Látrabjargi og Selárdal og einungis um hálfar stundar akstur er að Dynjanda.   
Rauðasandur
Rauðasandur er 10 kílómetra löng strandlengja sem einkennist af fallega lituðum rauðum sandi. Liturinn getur verið allt frá því að vera gulur, rauður og allt að því svartur, þetta fer allt eftir birtunni. Sandurinn fær þennan rauða lit líklegast vegna skeljabrota frá Hörpudiskskeljum. Tilvalið er að koma á Rauðasand á háfjöru og rölta um sandinn og týna sér í víðáttunni og njóta útsýnisins. Rauðisandur býður upp á frábært útsýni að Snæfellsnesi og þar fær jökullinn að njóta sýn í góðu veðri. Við mælum einnig með því að stoppa á kaffihúsinu!
Vigur
Vigur er ein þriggja eyja á Ísafjarðardjúpi og liggur úti fyrir mynni Skötufjarðar og Hestfjarðar. Hún er löng og mjó og dregur nafn af lögun sinni, en orðið vigur merkir spjót. Í Vigur var löngum stundaður heilsársbúskapur en nú eru þar engar kýr lengur. Þar eru þó enn nýtt hlunnindi, þ.e. æðarvarp og fuglatekja. Ferðir út í eyjuna hafa verið vinsælar á meðal íslenskra og erlendra ferðamanna undanfarin ár. Lundi, æðarfugl og kría eru helstu fugarnir á eynni og eitt helst aðdráttaraflið. Lundinn er búinn að koma sér svo vel fyrir í eyjunni að hann er búinn að grafa hana nánast í sundur. Ferðamönnum sem ferðast um eyjuna er því bent á að fylgja stígnum sem útbúinn hefur verið til þess að eiga ekki á hættu að detta ofan í lundaholur. Í Vigur er minnsta pósthús á Íslandi, eina kornmyllan á Íslandi og flest húsin eru nýlega uppgerð af Þjóðminjasafninu. Til þess að komast út í Vigur þá þarf að taka bát frá Ísafirði en ferðirnar eru skipulagðar daglega. 
Svalvogar
Svalvogavegur er 49 kílómetra langur vegkafli sem liggur á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Leiðin er torfær og erfið yfirferðar á köflum. Á stórum kafla þá þarf að fylgja sjávarhæð því þegar fellur að er vegurinn undir sjávarmáli. Svalvogavegur er með fallegustu leiðum á Íslandi til þess að keyra. Það er ekki hægt að keyra veginn nema vera á fjórhjóladrifnum bíl en best er þó að hjóla leiðina á góðu fjallahjóli þar sem vegurinn getur verið grýttur.  Ef lofthræddir einstaklingar eru í bílnum þá er lagt til að keyrt sé út Arnarfjörð frá Hrafnseyri og sá hringur tekinn að Þingeyri. Þá snýr bíllinn alltaf að fjallshlíðinni ef svo óheppilega vill til að þú mætir bíl. Einnig getur verið skemmtilegt að útbúa hring og keyra þá leiðina um Kvennaskarð og keyra framhjá hæsta fjalli Vestfjarða á leiðinni.
Foss í Fossfirði
Fossfjörður er einn af svokölluðum Suðurfjörðum, sem ganga inn úr Arnarfirði. Suðurfirðirnir eru Bíldudalsvogur, Fossfjörður, Reykjarfjörður, Trostansfjörður og Geirþjófsfjörður. Fossfjörður er þeirra vestastur. í botni Fossfjarðar er bærinn Foss og þar er einnig að finna fallegan foss sem heitir einfaldlega Foss. Í Fossfirði er vinsæll viðkomustaður ferðamanna sem hefur fengið nafnið A-húsið. Húsið er gamalt yfrigefið sem hefur verið vinsælt myndefni ferðalanga fyrir þær sakir að það er afar sérstakt í laginu og stendur á fallegum stað.